fimmtudagur, 22. apríl 2010
þriðjudagur, 20. apríl 2010
Af „spádómsgáfu“ jarðvísindamanna...
(...eða: Jarðfræðinemi fær útrás fyrir tuðþörf sína)
Jæja, hér er stuðandi staðreynd dagsins: Lára „sjáandi“ er ekki jarðfræðingur!
Mig langaði bara til að láta fólk vita, því það er eins og sumum finnist ekki vera mikill munur á „spádómum“ téðrar Láru og jarðvísindamanna undanfarið. Og þá er ég ekki að meina að fólk álíti Láru e-n snilling (nema alveg örugglega fullt af fólki), heldur álítur fólk jarðvísindamenn vera upp til hópa aula, sem kunni ekkert fyrir sér og spái alltaf e-i tómri vitleysu í staðinn fyrir að segja okkur hinum annað hvort nákvæmlega hvað sé að fara að gerast í Eyjafjallajökli og hvenær það gerist eða halda ellegar kjafti. Og vegna þess að jarðvísindamenn séu alltaf að þvaðra e-ð út í loftið, sem aldrei stenst nánari skoðun, sé alveg eins hægt að tala bara við grunnskólakrakka í Hvolsskóla (sem eru reyndar alveg örugglega eldklárir í jarðfræði) um það hvenær eldgosinu ljúki í staðinn fyrir að athuga hvort jarðvísindamenn geti kannski sagt okkur e-ð gáfulegt um þróun gossins út frá mælitækjum sínum.
Hér er næsta ótrúlega sannleikskorn dagsins: Jarð- og jarðeðlisfræðingar eru ekki miðlar!
Nú gera langflestir sér eflaust grein fyrir því hvað þetta þýðir (alla vega lesendur þessarar síðu, enda gáfnaljós upp til hópa), en það má kannski draga það saman þannig að vísindarannsóknir byggist á sífelldri endurtekningu og reynslu vísindamanna í gegnum tíðina. Efna- og eðlisfræðingar, svo tekin séu dæmi af vísindamönnum í raunvísindagreinum, geta framkvæmt stóran hluta tilrauna sinna á tilraunastofum, endurtekið að vild og komist þannig að niðurstöðu út frá hinni vísindalegu aðferð án þess að það taki margar aldir að horfa nógu oft á e-t hvarf eða ferli gerast úti í náttúrunni. Hluti jarðfræðinga, svo sem steindafræðingar, setlagafræðinga og fleiri, geta einnig unnið á tilraunastofum en hins vegar er hluti jarðvísindamanna, það er sá sem fæst við eldfjöll og hegðun þeirra, sem getur lítið annað gert en að bíða eftir næsta eldgosi til að framkvæma sínar „tilraunir“. Ástæðan fyrir því að þessir vísindamenn nota ekki tilraunastofur við vinnuna sína er ekki sú að þessi hópur hati tilraunastofur eða kunni ekki á tækin. Vandamálið felst frekar í því að nútímatækni býður illa upp á menn búi til eldfjöll inni á rannsóknarstofum, og svo er kannski líka frekar óhentugt að smíða tilraunastofur utan um eldfjöll. Hvort sem er, þá má segja að eldfjöllin séu tilraunastofur eldfjallafræðinga og eldgosin séu þá tilraunirnar, og ef hægt er að líta þannig á málin er augljóst að tilraunir eru ekki framkvæmdar að vild eða þegar fólki hentar. Þannig að ekki bara eru tilraunirnar tiltölulega fáar heldur er þar að auki hvert viðfangsefni, hvert eldfjall, sérstakt og að e-u leyti ólíkt öllum öðrum í hegðun.
Svo þannig að þegar fólk er fúlt yfir því að vísindamenn skuli ekki geta spáð almennilega fyrir um framvindu eldgossins í Eyjafjallajökli þá ætti fólk kannski ekki að vera fúlt við vísindamennina sjálfa og takmarkaða reynslu þeirra af eldgosum í nákvæmlega þessu eldfjalli heldur frekar bölva því að vera fætt í heimi þar sem nútímajarðfræði er mjög ungt fag, eða kannski bara bölva því að helstu jarðfræðingar landsins séu ekki mörg hundruð ára gamlir, það má líka. Því þegar öllu er á botninn hvolft þá gaus Eyjafjallajökull síðast fyrir tæpum tvö hundruð árum. Það er meira en þremur áratugum áður en fyrsti jarðfræðingur Íslendinga fæddist. Vissulega eru til býsna góðar frásagnir af síðasta gosi og jökulhlaupunum undan jöklinum, en síðast þegar ég vissi voru gps-mælitæki og jarðskjálftamælar 19. aldar frekar frumstæð tæki. Flugumferð var líka að slíta barnsskónum á þessum árum, Montgolfier-bræður tiltölulega nýbúnir að finna upp loftbelginn, en það hefði kannski verið ráð að fá e-n til að taka myndir af gosinu úr loftbelg? Fyrstu ljósmyndir sögunnar voru jú teknar akkúrat á þessum árum.
Sko, málið er að jarð- og jarðeðlisfræðingar koma ekki með „spádóma“ eins og miðlar, byggða á hugar- og draumórum eða „tilfinningu“ fyrir því að e-ð muni hugsanlega gerast í framtíðinni (jahérna, jarðskjálftar og eldgos á Íslandi, eru sjáendur landsins gjörsamlega gengnir af göflunum?!). Það getur vel verið að e-m finnist þetta blogg vera algjört röfl hjá undirrituðum en algjörlega burtséð frá því að viðkomandi hafi rétt fyrir sér, þá er greinilegt miðað við moggabloggara og aðra andans menn hér á landi að ekki eru allir sem gera sér grein fyrir því hvað jarðvísindin eru eða hvernig þau virka yfir höfuð. Kannski er það menntakerfinu að kenna, kannski e-u allt öðru, það er erfitt að segja, en það væri ágætt að sem flestir reyndu að hafa það í huga að jarðvísindamenn eru ekki bara að „giska“ e-ð út í loftið. Það sem þeir segja er yfirleitt byggt á gögnum og áratuga reynslu fjölda vísindamanna, en eins og í tilfelli gossins í Eyjafjallajökli þá er bara ekki alltaf um auðugan garð að gresja. Svo ef fólki er virkilega alvara með það að jarðvísindamenn séu nú bara til óþurftar ef þeir geti ekki hunskast til að vita allt sem þarf að vita um eldgosið í Eyjafjallajökli, þá erum við komin á virkilega furðulega braut í þekkingarleit okkar.
mánudagur, 19. apríl 2010
Nauðsynjavörur
Hvernig í ósköpunum má það vera að 10-11 á stúdentagörðunum eigi ekki til Season All? Í fyrsta lagi ætti auðvitað hver einasta búð með minnsta vott af sjálfsvirðingu að eiga Season All, hvað þá búð sem er sérstaklega ætluð stúdentum. Ef 10-11 hérna á Eggertsgötunni mætti bara bjóða upp á eina vöru þá væri það Season All. Svona þegar ég hugsa um það, þá ættu þeir yfir höfuð ekki að bjóða upp á neitt nema Season All, Season All er allt sem stúdentar þurfa.
Svo í raun hlýtur eina ástæðan fyrir því að 10-11 er ekki með Season All að vera sú að þeir hafi ekki undan að raða því upp í hillurnar áður en það er rifið út af stúdentum.
Svo í raun hlýtur eina ástæðan fyrir því að 10-11 er ekki með Season All að vera sú að þeir hafi ekki undan að raða því upp í hillurnar áður en það er rifið út af stúdentum.
Hin óumflýjanlega endurreisn bloggsins ... míns
Það er kominn tími á nýja tíma í bloggheimum!
Og þá er undirritaður auðvitað að tala um þá afkima þeirra þar sem Vonbrigðin hafa legið sjálfdauð og úldin síðustu árin. Faðir Vonbrigðanna hefur svo sem ekki hugmynd um hvernig umhorfs er í téðum afkima en e-ð segir honum að þar sé ekki beinlínis blómailmur eða gróðurangan hvers konar í lofti. Ef hann kæmist nokkurn tímann þangað til að upplifa stemminguna, sem hann stefnir auðvitað á (sjá þetta), þá býst hann við að þar sé bloggdaunn mikill, pest af hálfdeyjandi bloggum og rotnandi blogglík liggi þar sem hráviði. Mörg hafa jú bloggin farið yfir móðuna miklu og eru Vonbrigðin þar engin undantekning. Þau áttu langan og kvalarfullan dauðdaga en voru að lokum úrskurðuð látin í aprílbyrjun 2008 eftir að hafa lengi legið í dái. Syrgjendur voru fáir og var faðir Vonbrigðanna þar alls ekki á meðal.
En hafandi horft upp á löngu tímabært lát Vonbrigðanna hefur undirritaðan þó við og við langað til að leggja fingur á lyklaborð og blogga eins og fjandinn sjálfur væri á hælum hans. Ekki þó til þess að gráta yfir „hinu hræðilega hlutskipti“ bloggsins, eða til að tala um þá gömlu góðu daga þegar allir blogguðu tóma þvælu í stað þess að pósta tóma þvælu á fésbókina eins og nú er móðins. Nei, undirritaður hefur bara alltaf kunnað vel við sig í bloggheimum. Honum fannst þetta vinalegur staður og fallegur, og raunar miklu huggulegri heldur en harður heimur fésbókarinnar, sem hann ástundar þó líka eins og siðuðu fólki er sæmt. Kannski er þetta bara sáraeinföld nostalgía, söknuður eftir löngu liðnum árum áhyggjuleysis og barnæsku, þegar fólk bloggaði af ánægju og gleði og allt var gott og undurfallegt?
Nokkrum sinnum á liðnum árum hefur faðir Vonbrigðanna því reynt að vekja með sér áhuga á að taka upp fyrri iðju til að svala fortíðarþránni, en yfirleitt með takmörkuðum árangri. Núna þykist hann þó aftur hafa náð að stökkva á blogglestina, sem heldur áleiðis til blogglands. Eina vandamálið er að líkt og svo víða annars staðar í lífinu skilur undirritaður ekki stafkrók í lestaráætluninni og hefur því ekki minnstu hugmynd um hvort hann komist nokkurn tímann á leiðarenda.
Þá er gott að hafa í huga, að það er ekki áfangastaðurinn heldur ferðin sjálf sem skiptir mestu máli.
Og þá er undirritaður auðvitað að tala um þá afkima þeirra þar sem Vonbrigðin hafa legið sjálfdauð og úldin síðustu árin. Faðir Vonbrigðanna hefur svo sem ekki hugmynd um hvernig umhorfs er í téðum afkima en e-ð segir honum að þar sé ekki beinlínis blómailmur eða gróðurangan hvers konar í lofti. Ef hann kæmist nokkurn tímann þangað til að upplifa stemminguna, sem hann stefnir auðvitað á (sjá þetta), þá býst hann við að þar sé bloggdaunn mikill, pest af hálfdeyjandi bloggum og rotnandi blogglík liggi þar sem hráviði. Mörg hafa jú bloggin farið yfir móðuna miklu og eru Vonbrigðin þar engin undantekning. Þau áttu langan og kvalarfullan dauðdaga en voru að lokum úrskurðuð látin í aprílbyrjun 2008 eftir að hafa lengi legið í dái. Syrgjendur voru fáir og var faðir Vonbrigðanna þar alls ekki á meðal.
En hafandi horft upp á löngu tímabært lát Vonbrigðanna hefur undirritaðan þó við og við langað til að leggja fingur á lyklaborð og blogga eins og fjandinn sjálfur væri á hælum hans. Ekki þó til þess að gráta yfir „hinu hræðilega hlutskipti“ bloggsins, eða til að tala um þá gömlu góðu daga þegar allir blogguðu tóma þvælu í stað þess að pósta tóma þvælu á fésbókina eins og nú er móðins. Nei, undirritaður hefur bara alltaf kunnað vel við sig í bloggheimum. Honum fannst þetta vinalegur staður og fallegur, og raunar miklu huggulegri heldur en harður heimur fésbókarinnar, sem hann ástundar þó líka eins og siðuðu fólki er sæmt. Kannski er þetta bara sáraeinföld nostalgía, söknuður eftir löngu liðnum árum áhyggjuleysis og barnæsku, þegar fólk bloggaði af ánægju og gleði og allt var gott og undurfallegt?
Nokkrum sinnum á liðnum árum hefur faðir Vonbrigðanna því reynt að vekja með sér áhuga á að taka upp fyrri iðju til að svala fortíðarþránni, en yfirleitt með takmörkuðum árangri. Núna þykist hann þó aftur hafa náð að stökkva á blogglestina, sem heldur áleiðis til blogglands. Eina vandamálið er að líkt og svo víða annars staðar í lífinu skilur undirritaður ekki stafkrók í lestaráætluninni og hefur því ekki minnstu hugmynd um hvort hann komist nokkurn tímann á leiðarenda.
Þá er gott að hafa í huga, að það er ekki áfangastaðurinn heldur ferðin sjálf sem skiptir mestu máli.
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)