Fyrsti dagurinn í skólanum að kveldi kominn.
Dagurinn:
Fyrsta vikan í háskólum Danmerkur er svokölluð inngangsvika. Í þeirri viku koma eldri nemendur og kynna námið, skólann, félagslífið og raunar allt sem tengist þessu að e-u leyti. Í inngangsvikunni á maður líka að kynnast samnemendum sínum. Dagurinn hófst á spjalli þar sem tala átti við sessunautinn og segja síðan hinum í hópnum frá honum. Því næst var farið í kynningu á skólanum, nemendasamtökum og fleiru þess háttar. Nafnaleikurinn var að sjálfsögðu á sínum stað. Einn átti að byrja á að kynna sig með e-u viðurnefni, næsti átti síðan að segja nafn hans og síðan sitt, sá þriðji nafn beggja á undan og svo sitt, o.s.frv. Ég byrjaði, kallaði mig Íslendinginn (hverjum hefði dottið það í hug?) og uppskar bros fyrir ófrumlegheitin. Martin var nerd, Dennis storfodder, Lars tøj, Søren murer, Rolf golf, o.s.frv. Í hádeginu var farið í kantínuna, sem bíður upp á hræódýran en ágætan mat. Hádegisverðardiskurinn kostar ekki nema 25 danskar, sem er helvíti vel sloppið.
Skólinn:
Dalgas Have, aðalbygging tungumálahluta Verslunarháskólans. Risastór, hvít, björt og opin bygging með smekklegum innréttingum; sófum, gosbrunnum og listaverkum. Snyrtilegur garður fyrir framan með göngugötu meðfram húsinu. Við fyrstu sýn að flestu leyti mjög vel heppnuð bygging með fínni aðstöðu.
Bekkurinn:
Vorum tólf sem mættum í dag, sex strákar, sex stelpur. Það vantaði fjóra. Settist við hliðina á Martin og Dennis. Þeir voru hressir. Martin er 19 en Dennis 21 árs. Ég er eini útlendingurinn í bekknum, þ.e. sá eini sem er ekki með dönsku að móðurmáli. Ein stelpa er samt hálfspænsk og Dennis er hálfbreskur. Síðan er ein stelpa múslimi og gengur með slæðu, sem gefur bekknum skemmtilega alþjóðlegt yfirbragð. Gott að maður er ekki í Frakklandi. Feginn að lenda í svona fámennum bekk því það virðist fljótt ætla að skapast e-s konar bekkjarandi.
Leiðbeinendurnir:
Eldri nemendur sem aðstoða þá yngri, aðallega í inngangsvikunni en eru auðvitað til taks áfram. Voru tveir fyrsta einn og hálfan tímann, Jacob og Signe, þar til það kom í ljós að einn nemendanna, Lars tøj, var alls ekki nemandi heldur leiðbeinandi með einstaklega steiktan húmor. Mætti í jakkafötum og sagði sessunautinum að hann ætti fatabúð á netinu. Fór síðan allt í einu út úr stofunni, kom aftur inn í bol og gallabuxum og fór að kynna nemendasamtök af miklum móð. Minnir á Steinþór Heiðarsson í útliti og háttum. Svo sem ekki leiðum að líkjast, enda kemur hann mjög vel fyrir, hjálpsamur bæði og skemmtilegur. Hinir leiðbeinendurnir voru svo sem ekki síðri en sagt er að leiðbeinendurnir hafi verið í þjálfun síðan í febrúar. Það er því ljóst að frændur vorir, Danirnir, eru langt á undan okkur Íslendingum að þessu leyti. Enda eru þeir líka svo sósíal.
Tungumálið:
Skilningur í dag svona upp og ofan en hef ekki enn þurft að grípa til enskunnar þessa tólf daga sem ég hef dvalið í Danmörku. Ef ég kemst í gegnum vikuna án þess þá er ég örugglega kominn yfir erfiðasta hjallann. Húrra fyrir því.
mánudagur, 30. ágúst 2004
sunnudagur, 29. ágúst 2004
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)