laugardagur, 19. apríl 2003

Loksins, loksins, má maður líta í tölvuna. Ég hef ekkert gert í allan dag (þ.e.a.s. fram að miðnætti) nema fasta og fara með Passíusálmana. Núna er Föstudagurinn loksins liðinn og ég get um frjálst höfuð strokið. Á það svo sem skilið enda búinn að iðrast synda minna vel og lengi. En núna er ég hins vegar orðinn svo þreyttur að ég verð að fara að sofa.

Góða nótt, öllsömul!

miðvikudagur, 16. apríl 2003

Jæja, Ham vann auðvitað Zombie-punktinn, enda kannski ekki við öðru að búast. Þeir tóku okkur algjörlega á hljóðdæmunum, sem voru „frekar þung“ (hafði ekki heyrt nema brot af þeim). Þar spilaði reynsla þeirra í Ham auðvitað inn í ...

Punkturinn endaði sem sagt 20 - 18. Þótt frammistaðan hafi varla verið neitt til að hreykja sér af var mun skemmtilegra að taka þátt í þessum eina stutta þætti en í mörgum Gettu betur-sjónvarpskeppnum til samans.

Zombie verður svo endurfluttur í kvöld, og hefst Punkturinn þá rétt fyrir átta.

þriðjudagur, 15. apríl 2003

Já, nú er málið að hlusta á morgunþáttinn Zombie á X-inu klukkan átta í fyrramálið. Fyrir frekari upplýsingar vísist á Doktorinn.

mánudagur, 14. apríl 2003

Skemmtiatriði MS-inga í úrslitum Gettu betur var, með fullri virðingu fyrir öðrum atriðum, það flottasta sem ég hef séð í Gettu betur.

Ekki nóg með að það hafi verið ótrúlega vel samið og leikið, þá man ég ekki eftir neinu öðru atriði sem skildi e-ð merkilegt eftir. Að minnsta kosti ekkert jafnmagnað og atriðið hjá MS-ingunum ...
Var að koma af myndinni Confessions of a Dangerous Mind. Get ekki annað en mælt með henni. Myndin er vel grilluð, enda varla við öðru að búast af handritshöfundinum Charlie Kaufman. Svo virðist ýmislegt vera spunnið í George Clooney, en hann leikstýrir myndinni.