föstudagur, 21. mars 2003

Var að koma af mótmælasetu fyrir utan bandaríska sendiráðið, sem stóð frá hálf ellefu til miðnættis. Við vorum nokkur þarna, m.a. Oddur, Gvendur, Grétar og Steindór.

Þetta var ákaflega hugguleg friðarstund þangað til útikertin okkar fengu sjálfstæðan vilja og ákváðu að fríka gjörsamlega út. Voru þau við það næstum búin að kveikja í næsta húsi. Stuttu síðar framkvæmdu þau sjálfsmorð. líklegast til að mótmæla framferði Bandaríkjastjórnar.

Lögreglumaður einn fylgdist grannt með friðarstundinni og tók ég hann tali. Hann var afar þægilegur í lund og tók vel í það þegar Grétar bauð honum dreifimiða frá UVG til að dreifa á stöðinni. Stuttu síðar óku tveir óeinkennisklæddir framhjá. Þeir tóku okkur einnig tali en voru ekki alveg jafnskemmtilegir og hinn. Satt best að segja áttum við friðarsinnarnir ákaflega erfitt með að greina e-t vit í þessum tveimur hausum. Þegar menn telja aðra naíva vegna þess að þeir vilja ekki sprengja óbreytta saklausa borgara í tætlur...

miðvikudagur, 19. mars 2003

Það er ekki hægt að segja annað en að útlitið sé ansi svart núna. Stríð vofir yfir þar sem telja verður líklegt að Bandaríkjamenn og Bretar haldi inn í Írak í nótt.

Ef af innrás verður verða mótmæli haldin á morgun

klukkan hálf sex (17:30) á Lækjartorgi.


Mjög mikilvægt er að allir andstæðingar stríðsins sjái sér fært að mæta. Oft var þörf en nú er nauðsyn!
Í þessum skrifuðum orðum er ég að tala við Helga Hrafn Guðmundsson á MSN-inu. Það skemmtilega við það er að ég er sá fyrsti sem ræðir við hann á miðlinum, þetta er jómfrúarspjallið hans Helga!

Já, það borgar sig svo sannarlega að vaka fram eftir. Hér eftir ætla ég aldrei að sofa fyrr en í fyrsta lagi klukkan þrjú.

þriðjudagur, 18. mars 2003

Var að koma frá bandaríska sendiráðinu við Laufásveginn. Búið var að grýta eggjum í sendiráðið og ráðþrota lögreglumenn stóðu eins og álfar hjá og könnuðu aðstæður. Hópur af fólki stóð fyrir framan og sagðist vera að mótmæla stríðsáformum Bandaríkjastjórnar. Þrír þeirra voru með myndavélar og tóku myndir í gríð og erg af eggjaslettunum og löggunni.

Einn lögreglumannanna gaf sig síðan á tal við hópinn og spurði hvað fólk ætlaði sér að hanga þarna lengi. Mótmælandi í rauðum jakka sagði þá löggunni að drulla sér burt því mótmælendurnir hefðu ekki minnsta áhuga á að tala við hana. Hún gekk sneypt af vettvangi og höfðust lögreglumennirnir ekkert frekar að eftir það. Fyndið.