þriðjudagur, 22. nóvember 2005

Ég hef komist að því að ég er haldinn stækri partífælni. Reyndar er partífælnin hluti af stærri heild, þar sem t.d. búðafælni og vinnufælni spila inn og í raun mætti draga allt þetta, og fjölmarga aðra þætti, saman í almenna manna- og félagsfælni. Partíhlutinn er þó eins og gefur að skilja hvimleiðari en margir hlutarnir enda hindrandi í daglegu lífi. Ég þjáist nefnilega af djammfælni í allravíðustu merkingu.

Eftir töluverðar vangaveltur og umræður er mig farið að renna í grun að þessi skortur á félagslyndi sé að e-u leyti arfgengur. Samt veit ég ekki alveg af hvaða mæli ættingjar mínir, eins og t.a.m. bræður, hafi þurft að kljást við þessi leiðindi. Mig grunar nú að annað hvort séu þeir töluvert betur staddir en ég „genalega séð“ eða hafi a.m.k. lagt heldur meira á sig við að vinna á mannafælninni.

Í fyrrgreindu ljósi hef ég því ákveðið að taka mig hraustlega á. Svo ef fólk vill gera mér greiða, vera mér innan handar, styðja mig og styrkja, þá ætti það að bjóða mér eða jafn vel, ef nauðsyn krefur, draga mig nauðugan í partí og mannafagnaði hvers kyns. Það að umgangast fólk er, jú, auðvitað ekkert nema stanslaus æfing og algjör óþarfi að glutra niður þessari takmörkuðu færni sem manni hefur þó tekist, með þrotlausri vinnu, að ávinna sér í gegnum barna- og unglingsárin.