fimmtudagur, 3. febrúar 2005

Þann 2. desember 2003 skrifaði ég eftirfarandi inn á blogger.com, og ber það þess öll merki að hafa átt að vera grunnur í nýja bloggfærslu:

„Ég stofnaði 4. alþjóðasambandið í dag ásamt Helga, Grjóna og Jóa. Atla var boðið að vera með í stofnuninni en hann hló taugaveiklað. Hann fer fyrstur í byltingunni.“

Færslan fór aldrei í loftið. Ætli ég hafi ekki viljað athuga hvort 4. alþjóðasambandið hafi verið til eða ekki, eða kannski ætlað mér að lengja færsluna e-ð, og svo ekki nennt að ýta á publish-takkann. Holdgervingur bloggsögu minnar, endalausar færslur sem aldrei fóru í loftið. Jæja, ætli það kannist ekki flestir við þetta.

Þótt ég viti svo sem núna að 4. alþjóðasambandið hafi verið til áður, þá verða tengslin sem mynduðust í sögutímanum þennan dag milli okkar fjögurra í öftustu röðinni í 6.A seint rofin (ætli Frank hafi ekki bara verið veikur eða kannski ákveðið að halda sig fyrir utan vafasama pólitíska starfsemi). Ekki það að þing hafi nokkurn tímann verið haldið í sambandinu en það er aldrei að vita nema það verði kannski gripið til þess e-n tímann í vor.

Atli veit hins vegar hvað bíður hans.