laugardagur, 20. september 2003

Af e-m dularfullum ástæðum lá vinnuvélablað DV inni á stofuborði í gær. Forsíðumyndin vakti athygli mína enda var hún frá virkjanasvæðinu við Kárahnjúka. Inni í blaðinu, á bls. 4 og 5, voru svo sýndar fleiri myndir af svæðinu.

Þessar myndir eru hver annarri hræðilegri. Á þeim sést vel hversu gífurlega umfangsmiklar skemmdirnar á landinu eru. Búið er að grafa fyrir stíflunni langt upp í Fremri-Kárahnjúk enda á hún að verða „ein hæsta stífla Evrópu“. En frábært. Þeir sem styðja þessar framkvæmdir, en grenja svo yfir grjótnáminu í Ingólfsfjalli og Lambafjalli við Þrengslin ættu virkilega að hugsa sinn gang. Skemmdirnar á Rauðhólunum eru nánast eins og brandari miðað við eyðilegginguna fyrir austan.
Ekki það að ég búist við að þetta lag með Led Zeppelin sé til ...
Ég grét þegar ég vaknaði í morgun. Ástæðan var draumurinn sem mig dreymdi.

Ég var úti í garði bak við hús. Allt í einu heyrði ég tónlist berast út um eldhúsgluggann. E-r stelpur, sem stóðu rétt hjá mér, fóru að tala um hvað tónlistin væri rosalega flott og þá heyrði ég að það var verið að spila Led Zeppelin. En þótt ég þekkti hljómsveitina þá hafði ég samt aldrei heyrt lagið sjálft.

Ég heyrði þó strax að þarna var gullmoli á ferð. Þetta var blús, dáldið í líkingu við „Since I've Been Loving You“ en þó nokkuð hraðari og með bjartari, en flóknari, hljómagangi. Gítarsóló mikið var í miðju laginu en mesta athygli vakti fantagóður trommuleikurinn. Bonham tók þar breik, sem ég hef aldrei heyrt nein í líkingu við áður, og sparaði ekki bassatrommuslögin. Í lokin kom svo í ljós að þetta var tónleikaupptaka.

Nú, ég hljóp að sjálfsögðu inn í hús og náði að taka seinasta hluta lagsins upp á tölvuna, ætlaði líklegast að láta mér sérfróðari menn greina hvað þarna væri á ferð. Vaknaði hins vegar skömmu síðar, og hef grátið þetta lag í allan dag.

Þannig, að ef e-r hefur hugmynd um hvaða lag þetta gæti verið, vinsamlegast látið mig vita.
Orð dagsins er:

Skemmdarverkamaður
Jæja ...