þriðjudagur, 16. ágúst 2005

Afar skemmtilegar og hressandi fréttir hafa hrifið mig með sér á ský gleðinnar. Mér finnst ég vera að vakna af löngum, leiðinlegum, doða og í fyrsta skipti í langan tíma sé ég lífið í öðru ljósi en áður.

Nú er því bara spurning hvað internetið verður lengi að draga mig aftur niður í hyldýpi ruglsins. Auðvitað gæti ég notað tækifærið, slökkt á tölvudruslunni, og gert e-ð gáfulegt og skemmtilegt við tímann en því miður er ég fastur í sljóvgunarvítahring internetsins og á þaðan vart afturkvæmt nema með stórátaki. Vissulega æskilegu átaki en því miður svo stóru að jafnvel frábærar fréttir fá ekki slíku hrundið af stað. Þar gildir því hið forkveðna, líkt og svo oft áður: Andinn er reiðubúinn, en holdið veikt.

Jæja, best að tékka kannski aftur á molunum. Og ef enginn er búinn að blogga þá má nú alltaf tékka á mbl.is eða Vantrúnni ...

mánudagur, 15. ágúst 2005

Það er verið að rífa stillansana utan af blokkinni, sem ég hef unnið við síðustu fjóra mánuði, og nú fyrst geri ég mér grein fyrir því hversu ógeðsleg hún er að utan. Þetta er eiginlega ljótasta íbúðarhús, sem ég hef á ævi minni séð.