þriðjudagur, 12. október 2004

Komst að því að tvífari Franks Cassata býr á sama kollegium og ég. Sá hann í gær og hann leit á mig eins og hann ætti að þekkja mig. Þegar ég horfði á eftir honum leit hann alveg eins út og Frank, með jafnsítt jafnbrúnt hár, í peysu og buxum eins og Frank myndi ganga í, sama göngulag, jafnhár, jafnþungur, örugglega einn fjórði Sikileyingur ...

mánudagur, 11. október 2004

Annars er ekkert sérstakt að frétta héðan frá Danmörku. Er sem stendur í haustfríi (eða „kennslulausri viku“ eins og glottandi kennararnir segja), fæ búslóðina mína frá Íslandi á morgun og flyt þ.a.l. inn á nýtt kollegium, og svo kemur Elín Lóa á miðvikudaginn. Sem sagt, allt frekar í rólegri kantinum.

sunnudagur, 10. október 2004

Hver persónulega kunnugur mér, sem finnur málfarsvillu í færslunni frá 8. október og skrifar hana í athugasemdakerfið við þessa færslu, fær bjór frá mér. Ég mun servera ölið föstudaginn 15. október á hverjum þeim stað í Kaupmannahöfn sem viðkomandi athugasemdafærandi hefur áhuga á.

Já, núna fá allir, sem vilja, útrás.
Jahérna, nú er mér öllum lokið. Kommentakerfið hefur tekið við sér og starfar nú á fullum afköstum. Æði.
Nei, auðvitað var þetta óskhyggja hjá mér. Í stað þess að komast að e-s konar samkomulagi við blogger punkt kom heldur kvikindið mér nú í heljagreipum sínum. Ég mun því ekki njóta athugasemda frá lesendum mínum fyrr en ég hef komið blogginu mínu í almennilegt horf. Hið glænýja æðisgengna athugasemdakerfi Bloggers virðist nefnilega ekki styðja hið úrelta og dapurlega fyrirkomulag taflna og tr-taga html-málsins. Spurning um að vaka nótt og dag við að koma þessu í css-hæft form? Ég held ekki ...
Já, ég hef látið undan ófreskjunni Blogger punkti verslunar og virkjað hörmulegasta kommentakerfi internetsins. Ég hef reynt að lina þjáningar þeirra lesenda, sem gætu haft athugasemdir við skrif mín, með því að heimta ekki af þeim að þeir skrái sig sérstaklega inn í kerfi fyrrnefndrar ófreskju.

Því miður gaf gamla kommentakerfið endanlega upp öndina, þar eð ég á engin 14 sterlingspund til að leggja til fyrirtækisins Squawkbox.tv, þótt gott sé. Ég fékk þó óvæntan glaðning eftir andlátið, svo það var ekki til einskis. Vonandi verður fljótlega hægt að bjóða upp á enn nýrra og betra kommentakerfi.