föstudagur, 20. ágúst 2004

Nema kannski lág lofthæðin hérna í húsinu. Ég hugsa að það myndi ekkert þýða að bjóða hingað mönnum eins og Oddi og Helga, að ég tali nú ekki um Geira stert.
Í gærkvöldi fórum við Mosfellingurinn inn í Kaupmannahöfn. Ferðin tók ekki nema einn og hálfan tíma með fimmtán mínútna stoppi í Frederikssund þar sem við biðum eftir S-toget. Vel af sér vikið. Niðri í Kaupmannahöfn fengum við okkur kebab á Strikinu og komum okkur svo til vinafólks Elínar Lóu þar sem við fengum að gista.

Í morgun fórum við svo og kíktum á Verslunarháskólann í Kaupmannahöfn (CBS, Handelshøjskolen i København). Sumarskólinn var á fullu, mökkur af fólki út um allt. Skólinn leit í alla staði mjög vel út. Hann er að stærstum hluta á tveimur stöðum í Frederiksberg. Verslunar- og hagfræðihlutinn á öðrum staðnum en tungumálahlutinn á hinum. Við fórum auðvitað fyrst á vitlausa staðinn, sem var eins gott því mér fannst hann ekki alveg nógu skemmtilegur, aðeins of kaldur og stofnanalegur. Byggingin þar sem tungumálagreinarnar eru kenndar er hins vegar afar hugguleg og hlýleg. Ég fór og fékk ýmsar upplýsingar um námið og skólann, busabækling og hvers konar skemmtiefni.

Skólinn og námið leggst því býsna vel í mig og fátt sem angrar mig þessa dagana.
Bætt hefur verið við heimilisfangi í Danmörku til bráðabirgða. Einnig síma. Netfang er hins vegar ekki til bráðabirgða. Tenglalisti hefur einnig verið uppfærður.

fimmtudagur, 19. ágúst 2004

Svo var Elín Lóa að finna risakönguló inni á baði. Ég var e-ð að reyna að ná sambandi við hana en það var ekki jafnauðvelt og það virtist. Vonandi kynnist ég henni bráðlega. Ef niðurfallið fær ekki að kynnast henni á undan, þ.e.a.s.
Auk þess lofa ég að blogga ekki frekar í þriðju persónu.
Vonbrigði.blogspot.com bjóða gott kvöld frá Danmörku, nánar tiltekið frá Hyggevej 7 í Kyndby. Hingað kom Vonbrigðabloggari ásamt fríðu föruneyti um klukkan fimm að staðartíma. Hið nýja lögheimili bloggarans er einstaklega huggulegt. Það verður að segjast að eini sjáanlegi gallinn í fyrstu sé frekar, jah, stopular almenningssamgöngur.

Núna er ferðinni hins vegar heitið með síðustu strætóferð norður í Frederikssund þar sem S-tog verður tekin til Kaupmannahafnar. Þessi ferð mun að öllum líkindum taka meira en 80 mínútur og segir það ýmislegt um staðsetningu hins nýja heimilis. Í Køben verður snætt en svo gist hjá vinum föruneytisins fyrrnefnda.