laugardagur, 18. október 2003

Jæja, ég er búinn að standa mig alveg ágætlega í dag. Málaði tvær hvítar umferðir yfir loftið inni í herberginu hans Jolla bróður og lakkaði nokkra skápa. Hamagangurinn var svo mikill að ég neyddist til að þvo mér í framan með terpentínu eftir verkið. Á greinilega eftir að fínstilla lökkunarhæfileikana ...

Svo var árshátíð á fimmtudaginn. Blogga kannski (athugið, kannski) eilítið um hana og aðra atburði liðinnar viku á morgun.
Kommarnir eru líka alls staðar, alveg eins og fiðrildin. Eru illir kommúnistar í þínu heimalandi? Athugaðu það hérna.

Djöfull eru kommúnistalógóin mörg hver annars flott. Hérna er t.a.m. Kommúnistaflokkur Chile en þetta er sá suður-afríski. Samband sovéskra kommúnistaflokka má finna hér en kýpverski kommúnistaflokkurinn er nú með eitt allra flottasta merkið.
Fiðrildin eru greinilega að taka yfir, þau eru gjörsamlega alls staðar. Fór í sturtu með einu í morgun og borðaði pítsu með öðru áðan. Eitt þeirra er núna að lesa bloggið mitt.

föstudagur, 17. október 2003

Lét Eyjólf litlabróður „ryksuga“ aðeins gólfið inni hjá mér áðan. Hann hafði gott af því, enda búinn að vera biðjandi um það síðustu vikurnar.

Lofaði því líka að greiða honum fimmþúsund kall daginn sem hann næði að hafa mig undir. Hann er strax byrjaður að undirbúa sig. Segist stefna á ná því fyrir árið 2050.

mánudagur, 13. október 2003

Maðurinn hér í blogginu á undan, sem vill láta ritskoða sögu landsins, er að sjálfsögðu biskup, en ekki Gneistinn. E-r hefur e.t.v. misskilið það þar sem setningin kom í beinu framhaldi af tenglinum yfir á vantrúna (þótt það sé auðvitað alveg glatað að misskilja þessa setningu þannig...)

Annars er mamma búin að vera að lakka skápa í eldhúsinu seinustu daga og loftið hér inni er ekki beint heilsusamlegt. Eins gott að fara að koma sér út ...
Biskup kom skemmtilega á óvart í umfjöllun sinni um Draugasetrið á Stokkseyri en hann ku víst meðal annars hafa kallað það minningu um myrkur, hindurvitni og, ofan á allt, lágkúru. Mér hafði aldrei dottið í hug að hann væri svona ruglaður en annað kom á daginn.

Gneistinn er þegar búinn að fjalla um málið á vantrúnni. Hvernig er annars hægt að taka mark á manni sem vill ritskoða sögu lands síns á jafnheimskulegan hátt?

Gamli maðurinn, sem bjó fyrir ofan okkur í Eskihlíðinni, fullyrti reyndar að draugagangurinn á milli Stokkseyrar og Eyrabakka hefði nánast alveg lagst af á bannárunum ...