laugardagur, 22. janúar 2005

Atli Freyr Steinþórsson kvikmyndagagnrýnandi
Atli Freyr Steinþórsson heimspekiunnandi

fimmtudagur, 20. janúar 2005

Af hverju neitar maður því alltaf að hafa verið sofandi þegar e-r hringir og vekur mann?
Eitthvert mest grúví lag sem ég hef heyrt er lagið Sigtryggur vann ... með Þursaflokknum. Það er vissulega hvorki margbrotnasta lagið með Þursunum, né það flóknasta, en takturinn í því er hreint út sagt ótrúlegur, sérstaklega instrúmental-millikaflinn.

Annars er örugglega mest grúví lag, sem samið hefur verið, lagið Taxman með Bítlunum. Það mætti nánast nota það sem skilgreiningu á „grúví“.
Manfred Mann á sínum upphafsárum eru nú líka mjög góðir til hressingar, sérstaklega lög eins og Don't Ask Me What I Say, I've Got My Mojo Working og What You Gonna Do? The Five Faces eru sem sagt undir geislanum í augnablikinu.
Núna er það alls ekki ætlun mín að vera væminn og vemmilegur en það verður bara að viðurkennast að ég sakna ákveðinnar manneskju meira en orð fá lýst. Á stundum sem þessum er alltaf gott að geta lesið góð blogg og hlustað á Jaco Pastorius.

þriðjudagur, 18. janúar 2005

Það er aldrei að vita nema maður sjái jafnvel norðurljós hérna í Danmörku í kvöld, á góðum degi geta þau víst náð hingað suður. Fyrir Íslendinga er hins vegar nánast garanterað að það sjáist flott norðurljós, svo framarlega sem það haldist heiðskírt, a.m.k. samkvæmt Stjörnufræðivefnum.
Hvort ber það vott um heimþrá á háu stigi eða algjöra sturlun að fara a.m.k. þrisvar sinnum á dag inn á færðar- og veðurkort Vegagerðarinnar?

sunnudagur, 16. janúar 2005

Jæja, plús næturinnar var þegar maðurinn, sem sat við hliðina á mér í næturstrætónum á leið niður í bæ, spurði hvort hann mætti kyssa mig, og það meira að segja eftir að hann spurði hvers kyns ég væri. Mér finnst það nú sjálfum algjört aukaatriði hvort hann hafi viljað kyssa mig þrátt fyrir að ég sé strákur eða einmitt af því að ég er strákur, þetta er einfaldlega ákveðin viðurkenning á störfum mínum undanfarin ár, að ókunnugu fólk lítist svo vel á mig að það spyrji mig beinlínis hreint út hvort það megi kyssa mig.

Að vísu var það ákveðinn mínus að hann hafi fyrst spurt mig hvers kyns ég væri (með orðunum „hvad er du?“), en það kom mér svo sem ekkert á óvart þar sem það var í annað skiptið sem ég var spurður að því í gærkvöldi. Öllu verra þótti mér þó þegar hann stuttu síðar sagðist vera svo útúrdópaður að hann vissi ekkert hvað hann væri að gera.
Af hverju er blogger hjá mér á japönsku?