föstudagur, 8. október 2004

Ég er á góðri leið með að sprengja hverja einustu ljósaperu í húsinu hérna á Hyggevej. Það byrjaði allt þegar ljósaperan uppi á háalofti fór. Ég fékk reyndar ekki að njóta þeirrar peru nema í svona hálfa sekúndu því hún sprakk þegar ég kveikti á henni í fyrsta skipti.

Síðan þá hef ég losnað við útiljósaperuna, en það gerði lítið til þar sem ég hafði bara kveikt inni í forstofu í staðinn. Það var því verra þegar peran í forstofunni fór líka, því nú sé ég nákvæmlega ekkert þegar ég kem heim á kvöldin. Neyðist til að teygja mig og kveikja inni á klósetti til að ganga ekki á veggi og hurðarkamra.

Svo er líka orðið gaslaust hérna. Vil reyndar ekki meina að það sé vegna vanhæfni minnar í gaskútaskiptingum, en það ku hafa átt að vera fullur gaskútur úti í þvottahúsi. Sá gaskútur stendur nú þar sem hinn tómi stóð áður en gerir lítið gagn þótt tengdur sé. Í kjölfarið á þessum hremmingum hef ég gerst grænmetisæta og líkar bara ágætlega. Er einmitt að maula tómat í þessum skrifuðu orðum.