föstudagur, 13. maí 2005

Diary of a Mad Black Woman er hræðileg mynd, hræðileg hræðileg hræðileg. Ekki fara á hana. Því miður eyddum við Elín Lóa tíma okkar á henni í gær, en við fengum sem betur fer boðsmiða, þótt það sé vissulega ekki afsökun fyrir þessu bulli. Ég þori að veðja að nú verði farið í það að dæla út miðum á hana í e-m andskotans leikjum í útvarpi og á netinu til að fá a.m.k. e-r popp&kók-tekjur. Ekki taka þátt. Hendið boðsmiðunum. Þótt mann myndi jafnvel bara langa til þess að „slappa af yfir e-u bandarísku rusli eina kvöldstund“, þá verður að setja e-r mörk og þessi mynd er í öllum tilfellum langt undir mörkunum.

Ok, ég viðurkenni nú alveg að ég hafði ekki hugmynd um hvernig eða um hvað þessi mynd væri svo ég gæti alveg trúað fólki til að halda að þessi mynd sé allt í lagi. Ég hélt það líka. Kynningarveggspjaldið, með feitri blökkukonu haldandi á byssu, virðist gefa til kynna að um e-n skemmtilegan farsa sé að ræða. En, fyrst af öllu ber að athuga að þetta er ekki farsi, heldur rómantísk, kristileg, gamanmynd (jebb, ég skrifaði kristileg). Í öðru lagi er konan á veggspjaldinu ekki brjálaða blökkukonan, heldur amma hennar. Í þriðja lagi er þessi amma eina persónan í myndinni, sem gæti talist fyndin, en er samt álíka fyndin og Eiríkur Fjalar.

Allar persónur myndarinnar eru svo annað hvort algóðar eða alvondar. Leikurinn, og væntanlega leikstjórnin, er auðvitað eftir því. Atburðarásin er ömurlega barnaleg og einföld. Söguþráður kemst varla fyrir í myndinni út af kristilegum boðskap. Í myndinni er farið með borðbæn, farið í messu, aðalpersónan látin þakka guði fyrir að hafa hitt draumaprinsinn, gamla mamman látin þakka guði fyrir hvað allt sé orðið gott, dópistinn fer í meðferð á kristilegu meðferðarheimili (og losnar auðvitað undan ruslinu), dóttir dóparans syngur í kirkjukórnum, aðalpersónan fyrirgefur á „kristilegan hátt“ fyrrverandi manninum sínum, sem sigrast enn fremur, fyrir kraftaverk, á lömun fyrir neðan háls, o.s.frv. A.m.k. þrisvar sinnum í myndinni sést e-r halda á „The Holy Bible“. Í alvöru.

Svo þegar maður heldur að myndin sé búin þá eru 40 mínútur eftir af henni.

Þessi mynd gæti sem sagt hugsanlega gengið fyrir KSS-ara, séu þeir gjörsneyddir öllum húmor. Öðrum ætti alls ekki að láta til hugar koma að nota boðsmiða á hana, hvað þá borga sig inn. Ég ætla rétt að vona, og get raunar ekki trúað öðru, en að þeir sem keyptu myndina hingað til lands hafi vitað jafnlítið um hana fyrir fram og ég. En núna sitja þeir með köttinn í sekknum og eiga án efa eftir að reyna að fá fólk á þetta drasl með öllum tiltækum. Því mælist ég til þess að fólk ráði vinum og vandamönnum frá því að fara á þetta rusl áður en skaðinn er skeður.