miðvikudagur, 26. nóvember 2003

Er Golden Promises með Pelican besta íslenska dægurlagið? Jah, gott ef ekki, a.m.k. kemst það auðveldlega inn á topp tíu. Fljótlega á hæla þess fylgir síðan Amnesia með sömu hljómsveit ...

Ef ég ætti annars að taka saman topp 10 listann yfir bestu íslensku dægurlögin, sem ég hef heyrt, lenti ég í miklum vandræðum. Vandræðin fælust reyndar aðallega í því að velja úr þeim lögum Þursaflokksins sem ættu skilið að komast inn, en mig grunar að þau séu aðeins of mörg fyrir svo stuttan lista. Mörgum lögum Megasar væri líka erfitt að hafna.

Ef ég ætti hins vegar að búa til topp 10 lista yfir uppáhaldsíslensku dægurlögin, en mætti aðeins nefna eitt lag með hverjum flytjenda, liti listinn e-n veginn svona út (raðað í tímaröð, það fyrsta ekki endilega það besta):

Golden Promises (með Pelican, af Uppteknum, 1974)
Gamla gasstöðin við Hlemm (með Megasi, af Fram & aftur blindgötuna, 1976)
Í dvala (með Eik, af Hríslunni og straumnum, 1977)
Skriftagangur (með Þursaflokknum, af Þursabiti, 1979)
Talandi höfuð (með Spilafíflum, af Rokk í Reykjavík, 1982)
Við getum allt (eftir Hilmar Oddsson, af Eins og skepnan deyr, 1985)
Sex að morgni (með Bubba, af Frelsi til sölu, 1987)
Another you (með Bang Gang, af You, 1998)
Púsl (með Sesari A ásamt Skapta Ólafs, af Rímnamíni, 2002)
Sálarstríð (með Afkvæmum guðanna, 2002..?)

Hmm, vissulega nokkuð steiktur listi, en þetta eru lögin sem mér detta í hug í augnablikinu. Taka verður tillit til þess að ég hef ég alls ekki hlustað nógu mikið á íslenska dægurtónlist þannig að það er ekkert ólíklegt að e-r laganna hér að ofan eigi eftir að víkja fyrir núverandi óheyrðum lögum ...

mánudagur, 24. nóvember 2003

Birgir Örn Jónsson við ónefndan skólabróður sinn eftir fótbolta í leikfimi:

„Hættu svo að sparka í boltann eins og Stephen Hawking með vinstri.“